Back to All Events

FUBAR

Enn bætist í hóp gestasýninga í Frystiklefanum. Í þetta skiptið er það danssýningin FUBAR eftir Siggu Soffíu.  FUBAR hefur hlotið einróma lof gagnrýnanda í Reykjavík.  Nú er FUBAR á leið um landið og kemur í Frystiklefan Rifi 27.apríl. Höfundur verksins Sigga Soffía hefur verið áberandi í íslensku menningarlífi í mörg ár og verk hennar ekki farið fram hjá neinum.

"FUBAR er egósentrískt verk skandinavískrar stúlku. Textarnir í verkinu innihalda fyrsta heims vandamál, hugleiðingar og vandamál íslenskrar konu sem hefur lifibrauð sitt af því að dansa á sviði almenningi til skemmtunar. Sigga Soffía er 31 árs, hún hefur alla tíð verið mjög hrifnæm og er oft frá sér numin af gleði og sorg yfir hlutum sem hafa takmarkaða þýðingu fyrir aðra. Sigga Soffía er læs, skrifandi, með græn augu og skollitað hár. Hun má keyra bíl.

Verkið var frumsýnt í Reykjavík  í Gamla bíó síðastliðinn október og hefur síðan verið sýnt á Ísafirði,Akureyri,Borgarnesi,Ólafsfirði og Egilsstöðum. Sýningin saman stendur af hreyfiefni, söng og texta eftir Siggu Soffíu og Jónas Sen kemur fram og flytur lifandi tónlist. Leikmyndin er eftir myndlistarmanninn Helga Má Kristinsson og búningar eftir Hildi Yeoman.

Síðasta verk Siggu Soffíu "Og himinninn kristallast" sem samið var fyrir Íslenska dansflokkinn hlaut ein Grímuverðlaun af þremur tilnefningum. Verk hennar Svartar Fjaðrir, sem var opnunarsviðsverk Listahátíðar í Reykjavík 2015, var tilnefnt til þriggja grímuverðlauna en Jónas Sen og Hildur Yeoman unnu einnig í því. Þau fengu bæði tilnefningu, fyrir bestu tónlistina og búninga.

"Sigríður er ofsafenginn dansari sem hefur ekki bara impónerandi ægivald yfir líkama sínum heldur ekki síður magnaða tilfinningu fyrir uppbyggingu, skáldskap, ljóðrænu, tónlist og drama. Hún er dágóð leikkona, frábær sagnamaður og með fallega söngrödd, hefur til að bera kynþokka rokkstjörnu og tímasetningar góðs uppistandara. Tónsmíðar Jónasar eru til mikillar fyrirmyndar, þjóna sínu hlutverki vel, þótt þær myndu kannski ekki njóta sín jafn vel án umgjarðarinnar – grunar mig – en umgjörðin ekki heldur án þeirra, þetta eru allt púsl í sömu heildinni og allt passar fallega saman. Þá er fallegt að sjá hann dansa með Sigríði, það undirstrikar þema sýningarinnar, þennan berskjaldaða en tígulega vandræðaleik."

úr gagnrýni Eiríks Arnars Norðdal á Starafugl.is

Earlier Event: April 23
Kött Grá Pje & Heimir Rappari
Later Event: May 5
Pub Quiz!